Fannst meðvitundarskertur í Raufarhólshelli

Mikill viðbúnaður var hjá sjúkraflutningamönnum og björgunarsveitum á tíunda tímanum í morgun eftir að kona kom að erlendum ferðamanni meðvitundarskertum í Raufarhólshelli í Ölfusi.

Auk sjúkraflutningamanna voru björgunarsveitir frá Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn og Eyrarbakka kallaðar út, ásamt sveitum af höfuðborgarsvæðinu og fjarskiptahóp Landsbjargar, þar sem fjarskipti eru erfið inni í hellinum.

Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang kom í ljós að maðurinn var ekki eins langt inni í hellinum og talið var í fyrstu og voru bjargir frá höfuðborginni því afturkallaðar.

Að sögn Viðars Arasonar, stjórnanda aðgerðar hjá svæðisstjórn björgunarsveita í Árnessýslu, tók um hálfa klukkustund að búa um manninn og bera hann út úr hellinum. Hann hafði fengið heilahristing en var með meðvitund og var hann fluttur á slysadeild Landspítalans.

Líklegt er talið að maðurinn hafi dottið og fengið höfuðhögg en hann var einn á ferð, sem er stór hættulegt við þessar aðstæður að sögn Viðars.

Fyrri greinNáms- og kennsluver opnað á Hellu
Næsta greinHvessir undir fjöllum með kvöldinu