Fannst þungt haldinn í Gufunesi

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan handtók átta manns í gær vegna rannsóknar á meintri frelsissviptingu, fjárkúgun og manndrápi. Karlmaður á sjötugsaldri sem hafði yfirgefið heimili sitt í Þorlákshöfn á mánudagskvöld fannst snemma í gærmorgun við göngustíg í Gufunesi í Reykjavík. Hann var þungt haldinn og lést skömmu eftir komu á slysadeild.

Skömmu fyrir miðnætti á mánudagskvöld barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um að óttast væri um manninn. Lögregla hóf þegar eftirgrennslan og beindist grunur lögreglu fljótt að því að vera kynni um frelsissviptingu að ræða.

Þrír af þeim átta sem voru handteknir í gær hafa verið látnir lausir en tekin verður ákvörðun síðar í dag um hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir hinum handteknu.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi fer með rannsókn málsins en líkt og áður hefur verið greint frá hafa lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi auk sérsveitar ríkislögreglustjóra einnig komið að henni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi sem veitir ekki frekari upplýsingar að svo stöddu vegna rannsóknarhagsmuna.

Fyrri greinFagna 1200 ára afmæli landnáms og upphafs Hrunamannahrepps á næsta ári