Ljósmyndasýningunni Mannlíf og menning á Eyrarbakka 2013 sem opnuð var í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka á dögunum var í morgun hleypt af stokkunum sem farandsýningu á Dvalarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka.
Það voru Siggeir Ingólfsson og Björn Ingi Bjarnason sem komu með sýninguna í morgun. Sýningin verður þar í viku og mun næstu vikurnar færast frá einum stað til annars.
Gríðarleg ánægja var meðal íbúa og starfsfólks á Sólvöllum með ljósmyndasýninguna og víst er að möppunum verður margflett þar næstu daga.
Á ljósmyndasýningunni eru 270 ljósmyndir frá mannlífi og menningu á Eyrarbakka á árinu 2013 með sérstakri tengingu við Félagsheimilið Stað og framkvæmdirnar við útsýnispallinn allt frá upphafi framkvæmda til loka á dögunum. Sýningin er í níu myndamöppum og mjög meðfærileg fyrir fólk til skoðunar.