Farvegur Múlakvíslar hefur breyst vegna brúarframkvæmdanna sem standa þar yfir og rennur hún að mestu leyti í einum ál austanmegin.
Við þessar breyttu aðstæður festist rútan sem notuð hefur verið til að selflytja fólk yfir í álnum og fór á hliðina. Búið er að ná rútunni uppúr ánni.
Fólkið komst upp á rútuna út um þakglugga og Björgunarsveitin Víkverji ásamt vakt björgunarsveitar á staðnum kom ferðamönnunum á land austanmegin árinnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en sjúkraflutningur var afturkallaður þar sem enginn er slasaður. Þyrlan verður hins vegar notuð til að ferja fólkið úr rútunni á vesturbakkann óski einhverjir eftir því.
Fjöldahjálparstöð Rauða krossins hefur verið opnuð í Vík og Klaustri og farþegum boðið áfallahjálp.