Fjórir fasanar sáust við Biskupstungnabraut í Þrastaskógi í birtingu í gærmorgun.
Ólafur Vigfússon úr Reykjavík var á akstri í gegnum skóginn þegar hann kom auga á fjóra fugla í þýfi við veginn. Þegar betur var að gáð voru þetta fjórir fasanar, tveir hanar og tvær hænur. Frá þessu var sagt í hádegisfréttum RÚV.
Hanarnir gerðu sig breiða og þöndu stél. Þeir eru litskrúðugir og tignarlegir, en hænurnar halda sig við jarðlitina. Styggð kom að fuglunum og flugu þeir inn í skóg, en Ólafur náði að taka mynd af öðrum hananum.
Fasanar hafa sést öðru hverju í Þrastaskógi síðustu ár og er uppi kvittur að um hálfvillta fugla sé að ræða. Fasanar hafa verið ræktaðir hér á landi, t.d á Skeiðunum. Óheimilt er hins vegar að sleppa fuglunum út í náttúruna þar sem rjúpum stafar sýkingarhætta af þeim.
Fasanar (l. Phasianus colchicus) eru hænsnfuglar og hefur verið sleppt til veiða víða í Evrópu. Akurhænustofninum á Bretlandi hefur hrakað mjög á liðnum árum vegna þessa.
Um 50 milljón fugla eru veiddir í heiminum árlega en fasaninn er ein vinsælasta veiðibráð í heiminum. Ekkert hefur þó spurst til áhugasamra veiðimanna í Þrastaskógi en fasaninn ku vera gómsæt máltíð á eplabeði.