Heildarmat fasteigna á Suðurlandi hækkar um 5,8% frá yfirstandandi ári og á landsvísu er hækkunin mest á Suðurlandi þó að fasteignamatið hækki víða mun meira í einstökum sveitarfélögum.
Heildarmat fasteigna á landinu öllu hækkar um 4,3% og verður 4.956 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2014 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Nýtt fasteignamat miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2013 og byggist á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum.
Utan höfuðborgarsvæðisins hækkar fasteignamat sérbýlis meira en mat fjölbýlis. Fasteignamat á landinu hækkar mest í Strandabyggð eða um 16,3% og um 10,1% í Vestmannaeyjum en lækkar hins vegar um 0,6% í Reykjanesbæ og um 0,3% í Grindavík. Heildar hækkunin á Suðurlandi er sem fyrr segir 5,8%.
Lögum samkvæmt á fasteignamat að endurspegla markaðsverðmæti, staðgreiðsluverð, fasteignar á hverjum tíma. Fasteignamatið byggist á upplýsingum úr tugum þúsunda þinglýstra kaupsamninga, sem gerðir hafa verið undanfarin ár, og tekur mið af mörgum ólíkum þáttum sem varða eiginleika og gerð hverrar fasteignar, svo sem stærð, byggingarár, byggingarflokk, byggingarefni og staðsetningu.