Heildarfasteignamat á Suðurlandi hækkar um 5,9% frá síðasta ári. Þetta kemur fram í nýju fasteignamati fyrir árið 2013 sem Þjóðskrá Íslands birtir í dag.
Að meðaltali hækkar fasteignamat um 7,4% á landinu en mest á höfuðborgarsvæðinu, um 9,3%
Fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna eins og það var í febrúar 2012 og byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum.
Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í fjölbýli meira en mat íbúða í sérbýli en utan höfuðborgarsvæðisins er þessu öfugt farið, þar hækkar fasteignamat á sérbýli meira en á fjölbýli.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis í landinu hækkar um 5,4% frá síðasta ári. Frístundahúsnæði hækkar hins vegar að jafnaði mest á milli ára eða um 8,8%.
Eftir mikinn samdrátt í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 hafa fasteignaviðskipti heldur verið að glæðast síðustu misseri að því er fram kemur í tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands.