Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 2,1% frá yfirstandandi ári og verður rúmlega 9,4 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2021.
Þetta er umtalsvert minni hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 6,1% á landinu öllu.
Gervigreind notuð til auka nákvæmni
„Að endurmeta yfir 200 þúsund fasteignir árlega er eitt stærsta verkefni Þjóðskrár Íslands. Á hverju ári fer mikil vinna í að bæta okkar aðferðir og nýta nýjustu tækni til að styðja við útreikninga fasteignamats. Að þessu sinni hefur meðal annars gervigreind verið hagnýtt við matið sem styrkir þær aðferðir sem unnið er eftir og eykur nákvæmni í okkar vinnu,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands.
Mesta hækkunin í Ölfusinu
Heildarfasteignamat á Suðurlandi hækkar um 2,2%. Fasteignamat íbúða á Suðurlandi hækkar mest í Ölfusi, um 15,2% og fasteignamat sumarhúsa hækkar mest á landinu í Ölfusi, um 7,7%. Fasteignamat sumarhúsa hækkar um 6,8% í Ásahreppi.
Bætt framsetning á vef
Á vef Þjóðskrár Íslands www.skra.is má fletta upp breytingum á fasteignamati milli ára auk þess sem aukin áhersla hefur verið lögð á myndræna og notendavæna framsetningu á nýju fasteignamati. Þannig geta eigendur fasteigna og aðrir bæði kynnt sér breytingar á einstökum eignum sem og þróun á milli ára eftir landsvæðum og mismunandi tegundum eigna. Upplýsingar um breytingar á fasteignamati eru nú settar fram á kortagrunni en auk þess hefur verið þróuð ný vefsjá fyrir matssvæði íbúðarhúsnæðis, sumarhús og atvinnuhúsnæðis sem sýnir staðsetningu matssvæða og breytingar á milli ára.