Fasteignamat hækkar um 9,9% á Suðurlandi

Fasteignamat á Suðurlandi hækkar um 9,9% fyrir árið 2012. Fasteignamat íbúðarhúsa á jörðum og annars íbúðarhúsnæðis í dreifbýli breytist yfirleitt mun meira.

Þjóðskrá Íslands birtir landsmönnum í dag fasteignamat fyrir árið 2012. Það miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2011 og er nú í fyrsta sinn birt á vefnum. Fasteignaeigendur geta nálgast matið á upplýsinga- og þjónustuveitunni www.island.is sem Þjóðskrá rekur.

Breytingin í dreifbýli stafar meðal annars af því að aðferðir við mat á þeim eignum hafa verið verulega endurbættar og þar með má segja að matsaðferðir fyrir allt íbúðarhúsnæði á landinu hafi nú verið endurskoðaðar í samræmi við lög sem tóku gildi 2009.

Meðal annars vegna þessa er hlutfallsleg hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis mun meiri í tilteknum sveitarfélögum í dreifbýli en í öðrum. Til dæmis hækkar fasteignamat í Ásahreppi um 47%.

Lög kveða á um að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti (staðgreiðsluverð) fasteignar. Fasteignamat íbúðarhúsnæðis fyrir árið 2010 var hið fyrsta sem unnið var í samræmi við nýju lögin og þetta er því í þriðja sinn sem fasteignir eru metnar á þennan hátt í stað þess að framreikna matið frá ári til árs í samræmi við verðlagsbreytingar.

Mat íbúðarhúsnæðis 2012 byggist á yfir 34.000 kaupsamningum frá júlí 2005 til apríl 2011. Þar kemur í ljós að fasteignamarkaðurinn á landinu er greinilega að taka við sér á ný eftir hrun. Til marks um það er að um 800 kaupsamningar voru gerðir á fyrsta ársfjórðungi 2009 en um 1.300 á sama tíma í ár.

Fyrri greinVegfarendur sýni aðgát
Næsta greinFræðslunetið opnar á Hvolsvelli