Fastir í snjó á Sprengisandi

Björgunarsveitarmenn úr Dagrenningu á Hvolsvelli eru nú á leið norður á Sprengisand til þess að aðstoða erlenda ferðamenn sem sitja þar fastir í snjó á jepplingi sínum suðvestur af Nýjadal.

Um 200 km leið er að ræða og má búast við því að björgunarsveitarmennirnir verði komnir á staðinn um klukkan tvö í nótt. Vegurinn er seinfarinn vegna færðar og myrkurs.

Ferðamennirnir hringdu í Neyðarlínuna í kvöld og létu vita af sér en Sprengisandsleið er lokuð líkt og flestir vegir á miðhálendinu. Björgunarsveitarmennirnir sem fóru þeim til hjálpar munu svipast um eftir því hvort lokanir séu merktar á leiðinni.

Fyrri greinBuster varði titilinn
Næsta greinEgill vann brons á Opna sænska