Fastir vélsleðamenn við Langjökul

Björgunarsveitir við Sæluríki í nótt. Ljósmynd/Tintron

Rétt upp úr miðnætti bárust Neyðarlínunni neyðarboð frá Langjökli, rétt við fjallið Klakka. Við nánari eftirgrennslan voru þar tveir menn á ferð á vélsleðum og höfðu þeir lent í talsverðri festu.

Þeir voru vel búnir og engin hætta á ferðum en óskuðu aðstoðar við að losa sleða sína.

Björgunarsveitir suður af Langjökli voru boðaðar út, sem og björgunarsveit úr Borgarfirði sem fór inn á Kaldadal og þar með voru bjargir á leið á staðinn bæði að norðan og sunnan.

Ferð björgunarsveita gekk ágætlega inn að jökli og klukkan 3 í nótt komu fyrstu björgunarmenn sem voru á vélsleðum, á vettvang.

Vel gekk að aðstoða við að losa föstu sleðana og þáðu sleðamennirnir fylgd til byggða, þar sem bensínbirgðir voru orðnar af skornum skammti.

Björgunarsveitir skiluðu sér til baka í bækistöðvar á sjöunda tímanum í morgun.

Fyrri greinFæreyjaferð blokkflautusveita Tónlistarskóla Árnesinga
Næsta greinForsætisráðherra boðar til fundar á Eyrarbakka