Fátt fólk er við gosstöðina en sem fyrr eru björgunarsveitarmenn og lögregla á vakt á nokkrum stöðum í Goðalandi, á Fimmvörðuhálsi og við Skóga og Sólheima.
Að sögn björgunarsveitarmanna sem fóru um Mýrdalsjökul nú í morgun er færi þar fyrir bíla á 38 tommu dekkjum en ekki fyrir bíla á minni dekkjum.
Eins og fram kom í gær þá hafa orðið nokkrar breytingar við gosstöðvarnar í gær og í fyrrinótt. Hraunið hefur breitt úr sér á stærra svæði, þar sem útsýnissvæðin eru, og hefur það brætt mikið af snjó og ís. Vatnið hefur runnið til norð-austurs og skorið sprungu í ísinn á rúmlega 600 m kafla. Þessi sprunga er hættuleg allri umferð á svæðinu og þeir sem fara þarna um eru hvattir til að sýna aðgát og leita til viðbragðsaðila á staðnum ef það vantar frekari upplýsingar. Þá hefur hraun einnig farið að renna frá nýrri sprungunni til vesturs í Hvannárgil og stendur gufustrókur uppúr því.