Kennaraverkfallið í Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur nú staðið í þrjár vikur. Verkfallið hefur mikil áhrif á þá fanga á Litla-Hrauni sem stunda nám við skólann. Formaður Afstöðu segir verkfallið geta haft alvarlega afleiðingar fyrir fangana.
„Hverju sinni er að meðaltali á annan tug nemenda á Litla-Hrauni og eru það bæði Íslendingar og útlendingar. Fjöldi nemenda rokkar svolítið eftir áhuga og hvernig fangahópurinn er samansettur,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, í samtali við sunnlenska.is.
Afstaða er félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun. Markmið félagsins eru fyrst og fremst þau að vinna að tækifæri fyrir fanga til ábyrgðar, endurreisnar og að búa þeim skilyrði til farsællar endurkomu út í samfélagið.
Frá árinu 1979 hefur kennsla af einhverju tagi farið fram á Litla-Hrauni. Eftir að Fjölbrautaskóli Suðurlands var stofnaður árið 1981 hafa kennarar við skólann annast kennsluna á Litla-Hrauni. Þess má geta að rannsóknir hafa sýnt að nám er stór partur af betrun fanga.
Allt skipulag riðlast
Guðmundur segir verkfallið hafa mikil áhrif á þá fanga sem stunda nám við FSu. „Dagur þeirra sem verkfallið bitnar á er mun lengri að líða en venjulega. Allt skipulag riðlast, þar sem mun minna er um að vera hjá þeim og til dæmis minnkar áhugi á því að vakna snemma. Þar með er fyrir bí sú litla endurhæfing sem í boði er.“
„Það getur verið mjög erfitt að missa stefnuna á þennan hátt, markmiðið með náminu hverfur og þar með tilgangurinn með því að vinna í sjálfum sér. Þá fá fangar almennt greidda þóknun fyrir að stunda nám og hefur verkfallið áhrif á kaupmátt nemenda, sem mega alls ekki við því.“
Samfella í náminu mikilvæg
Guðmundur segir verkfallið geti hafi slæmar afleiðingar á fangana, sérstaklega ef það dregst á langinn. „Þetta eru fangar sem sjálfir hafa valið að ganga menntaveginn, þeir hafa valið að nýta tímann í afplánun til góðs og samfella í náminu er lykillinn að því að halda þeim við efnið. Það er því miður ekki gefið að þeim sem detta út úr náminu í verkfallinu takist að hoppa aftur um borð í vagninn og halda áfram þegar samið verður við kennara.“
„Þetta er fólk sem er lokað inni og fátt er innan veggja Litla-Hrauns sem örvar heilann eins og námið. Iðjuleysi veldur klárlega andlegum kvillum á borð við þunglyndi og depurð og alltaf er mögulegt að bakslag verði hjá einhverjum þeim sem viðkvæmir eru fyrir.“
Fangelsi eru eins og sjúkrahús
„Afstaða átti fund með Ásmundi Einari Daðasyni, ráðherra menntamála, í maí síðastliðnum, þar sem hann boðaði jákvæðar fréttir í menntamálum fanga í síðasta lagi á haustmánuðum. Hann raunar sagðist ekki ætla að yfirgefa ráðuneytið án þess að koma þessum málum í jákvæðan farveg. Við höfum því miður ekkert heyrt frá honum eftir þennan fund.“
„Því er aðeins að vona að næsti menntamálaráðherra muni huga betur að þessum málaflokki, þannig að staða sem þessi komi ekki upp að nýju. Fangelsi eru eins og sjúkrahús og öll meðferðarrof eru alvarleg og geta valdið miklum skaða,“ segir Guðmundur að lokum.
Nám í fangelsum alla tíð verið mjög farsæl starfsemi
Sunnlenska.is hafði samband við Halldór Val Pálsson, forstöðumann fangelsa há Fangelsismálastofnun. Hann segir að verkfallið sé bagalegt og hafi mikil áhrif á þá fanga sem stunda nám við FSu.
„Nám í fangelsum hefur alla tíð verið mjög farsæl starfsemi og lykilþáttur í endurhæfingu fanga. Það er aðeins mismunandi milli ára hvaða fög er hægt að bjóða upp á en íslenska, íþróttir, stærðfræði, enska, danska og spænska eru ákveðin kjarnafög. Einnig saga, félagsfræði og sálfræði eftir áhuga og framboði. Þá hefur skólinn einnig geta boðið upp á nám í grunngreinum byggingagreina eins og trésmíði, rafmagnsfræði, teikningum og húslýsingum og fleiru. Skólaárið 2022-2023 luku fangar alls 338 einingum í fangelsunum,“ segir Halldór Valur.
„Oft eru í kringum 30-35 fangar skráðir í nám á Litla-Hrauni og allt að tíu fangar á Sogni í upphafi annar, þetta er aðeins sveiflótt milli anna. Það voru heldur færri sem hófu nám í haust en óvenjufáir fangar eru núna á Litla-Hrauni vegna viðhaldsvinnu í fangelsinu og tölurnar ekki alveg marktækar en yfir 20 nemendur skráðu sig til náms í byrjun haustannar.“
Lykilþáttur í betrunarstarfi fanga
Kennarar frá FSu koma á Litla-Hraun og kenna í kennslustofum þar. Kennslustofurnar eru þrjár: tölvustofa, stór kennslustofa og lítil kennslustofa eða lesherbergi. Þá fer kennsla líka fram á vinnustöðum eins og járnsmíðaverkstæði, trésmiðju og í íþróttasal.
Halldór Valur segir að kennslan gangi almennt vel og áhuginn meðal fanga sé mikill. „Námið er lykilþáttur í betrunarstarfi fanga og þarf sífellt að reyna að efla og bæta. Áhugi á verknámi er mikill og til framtíðar þarf að auka það.“
„Þetta verkfall er mjög bagalegt. Við treystum á að geta boðið upp á nám fyrir stóran hluta fangahópsins þar sem við getum ekki útvegað þeim öllum vinnu. Það eru því einhverjir fangar sem við höfum ekki vinnu fyrir, þeir ná ekki að sinna námi og eru því verkefnalausir,“ segir Halldór Valur að lokum.