„Fátt sem jafnast á við útsýnið í Reykjadal“

Almar og Lóa í Café Reykjadal í Ölfusi. Ljósmynd/Ingibjörg Zoega

Um síðustu helgi opnaði Café Reykjadalur í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði.

„Við höfum verið að undirbúa opnunina í hátt í tvö ár ásamt eigendum hússins. Undirbúningur hefur tafist vegna COVID en allt gekk vel þegar það fór af stað,“ segir Ólöf Ingibergsdóttir í samtali við sunnlenska.is.

Ólöf, betur þekkt sem Lóa, rekur Café Reykjadal ásamt eiginmanni sínum, Almari Þór Þorgeirssyni, en þau eiga og reka einnig Almars bakaríin sem eru staðsett víðsvegar um Suðurland.

„Café Reykjadalur er fyrir alla gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi,“ segir Lóa og hlær. „En þetta verður vinsælt stopp fyrir þá sem eru að fara í heita lækinn eða að koma frá honum.“

„Við bjóðum upp á sérstaklega góða súpu með lambakjöti (líka til vegan) sem er framreidd í brauðskál. Tertur og eðalkaffi og svo munum við verða með vöfflur og ostabakka. Það kemur aðeins seinna. Og svo auðvitað samlokur fyrir nestið.“

Þess má geta að fataverslunin Kormákur og Skjöldur er einnig staðsett í Café Reykjadal og hvetur Lóa fólk eindregið til að kíkja á úrvalið hjá þeim.

„Viðtökurnar hafa verið frábærar enda er fátt sem jafnast á við útsýnið sem er í Reykjadal. Staðurinn er vel staðsettur og góð bílastæði. Við vitum að sumarið verður gott. Alla langar að ferðast og hreyfa sig, eða bara koma og njóta náttúrufegurðinnar og fá sér einn kaldan í blíðunni sem verður í sumar. Er það ekki?,“ segir Lóa að lokum.

Fyrri greinFækkar mikið í einangrun
Næsta greinSelfoss fær nýjan markvörð