„Mér var alveg sama, mér fannst þetta bara fyndið enda hlýtur að vera um villu að ræða," segir Hólmfríður Erna Kjartansdóttir sem fékk 15 milljarða króna kröfu frá ríkinu í heimabankann sinn í dag.
„Ég skuldaði ríkinu 15.000 krónur en að fá 15 milljarða rukkun er kannski heldur ríflegt,“ segir Hólmfríður Erna, sem er einstæð móðir á Selfossi. „Þetta var bara mjög hressandi.“
Hólmfríður fær engan afslátt frá ríkinu á upphæðinni en auk 15 milljarðanna eru komnir vextir á kröfuna upp á 1.201 krónu. Þessi upphæð færi langleiðina með loka fjárlagagatinu hjá ríkisstjórninni, ásamt því að vera um helmingur áætlaðs verðmætis makrílkvótans í ár.
Í samtali við sunnlenska.is sagði Hólmfríður ólíklegt að hún myndi greiða kröfuna en hún átti eftir að hafa samband við skattyfirvöld til að fá skýringar á henni.