Lögreglan á Suðurlandi kærði 30 ökumenn fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Sá sem hraðast ók var á 161 km/klst hraða.
Þar var á ferðinni bandarískur ríkisborgari sem situr uppi með 230 þúsund króna sekt og viðeigandi sviptingu. Hann var stöðvaður á Suðurlandsvegi austan við Hvolsvöll.
Íslenskur ökumaður var kærður fyrir að aka á 99 km/klst hraða á Eyrarvegi við bæjarmörk Selfoss, þar sem leyfður hraði er 50 km/klst. Hann fékk 100 þúsund króna sekt.
Hraðakstursmálin dreifast nokkuð jafnt um umdæmið, níu ökumenn voru kærðir í Árnessýslu, tíu í Rangárvallasýslu, sjö í nágrenni Kirkjubæjarklausturs og þrír við Hornafjörð.
Ók á grindverk og stakk af
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir meinta ölvun við akstur. Um miðjan dag á fimmtudag hafði lögregla afskipti af ökumanni bifreiðar sem ekið hafði á grindverk í íbúðargötu á Selfossi og síðan af vettvangi. Sá reyndist ölvaður og sviptur. Að kvöldi miðvikudagsins var ökumaður á Eyrarbakkavegi stöðvaður og reyndist sá einnig ölvaður.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma við akstur bifreiðar sinnar. Hvor um sig þarf að greiða 40 þúsund króna sekt fyrir brotið.
Skráningarnúmer voru tekin af tveimur ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni. Sekt fyrir að vanrækja að tryggja ökutæki lögboðinni ökutækjatryggingu er nú 50 þúsund krónur.