Guðný Sigurðardóttir kom á Selfoss um kl. 13:30 í dag eftir göngu frá Landspítalanum við Hringbraut en hún lagði þaðan upp á miðnætti.
Áheitagangan er haldin til styrktar Birtu — Landssamtaka foreldra/forráðamanna sem misst hafa börn/ungmenni með skyndilegum hætti. Guðný gengur í minningu dóttursonar síns, Vilhelms Þórs, sem drukknaði í Sundhöll Selfoss þann 21. maí 2011. Hann var endurlífgaður og fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann við Hringbraut, þar sem hann lést daginn eftir.
Fjöldi fólks hefur slegist í hópinn og gengið með Guðnýju en um eitthundrað manns gengu með henni síðasta spölinn á Selfoss. Hún var komin í Hveragerði fyrir klukkan ellefu í morgun og hópurinn stoppaði síðan við Kögunarhól í Ölfusi þar sem sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur á Selfossi, var með stutta hugvekju.
Við komuna í Sundhöll Selfoss fékk Guðný blóm frá bæjarstjórninni en í fyrramálið mun bæjarráð samþykkja myndarlegan styrk til Birtu, samtakanna, sem Guðný er að safna fyrir. Auk þess var gönguhópnum boðið frítt í sund.
Nú tekur við sundmaraþon hjá Guðnýju, en hún ætlar að synda 286 ferðir, eina fyrir hverja viku sem Vilhelm lifði. Guðný áætlar að sundið muni taka um fjóra klukkutíma.
Hægt er að hringja í númerið 901-5050 til að styðja við Birtu með þúsund króna framlagi, en einnig er hægt að leggja frjáls framlög inn á reikning: 1169-05-1100, kt. 231261-2579.