Laufey Helga Ragnheiðardóttir í 7. bekk Flúðaskóla fékk gullverðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda 2014 en verðlaunin voru veitt um síðustu helgi.
Uppfinning Laufeyjar Helgu, hóffjaðrakústurinn, sló í gegn í keppninni og tryggði þessari ungu hugvitskonu gullverðlaunin.
Átjánhundruð grunnskólanemendur af öllu landinu sem sendu uppfinningar inn í keppnina en 39 voru valdir í vinnusmiðju þar sem þeir gátu útfært sínar hugmyndir nánar og að smiðjustarfinu loknu voru úrslitin kynnt.
Laufey, sem er 12 ára gömul, býr á bænum Langholtskoti í Hrunamannahreppi. Móðir hennar er Ragnheiður Ósk Guðmundsdóttir og fósturfaðir hennar er Guðmann Unnsteinsson, tamningamaður.
„Kennararnir hvetja okkur sem erum í 5. til 7. bekk að taka þátt og flestir reyna að senda inn hugmyndir á hverju ári,“ segir Laufey Helga. Hún segir að hugmyndin hafi komið þegar hún var í smíðatíma í skólanum.
„Ann, sem er skólaliði í bekknum mínum var að tala um að vinnumaður hjá henni hafi notað lítinn segulkubb til að týna upp hóffjarðir eftir járningar. Þá var mér hugsað til Manna, pabba míns og hvað það væri sniðugt fyrir hann að hafa svona „hóffjaðrakúst“ þegar hann er að járna.“
Laufey segir að það hafi komið sér svolítið á óvart að hennar uppfinning hafi verið valin áfram í úrslitin. Og í ljósi þess hve margar uppfinningar voru sendar inn í keppnina þá er árangur hennar svo sannarlega glæsilegur.
En stefnir Laufey Helga að því koma fram með fleiri uppfinningar í framtíðinni? „Já, ég held það bara. Mér finnst gaman að koma með ýmsar hugmyndir og stefni á að koma hóffjaðrakústinum í framleiðslu einn daginn,“ segir þessi unga uppfinningakona að lokum.
Fleiri Sunnlendingar unnu til verðlauna í keppninni en farandbikarinn í flokki minni skóla fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í keppninni hlaut Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri