Fékk verðlaun fyrir besta lokaverkefnið

„Ég ákvað að semja mína eigin tónlist fyrir lokaverkefnið og samdi þá tónlist undir ljóð Snorra Sturlusonar úr Eddukvæðum um Ginnungagap,“ segir Selfyssingurinn Jósep Helgason sem hlaut verðlaun fyrir besta lokaverkefnið þegar hann útskrifaðist úr hljóðtækniskólanum SAE Institute í Berlín fyrir skömmu.

„Ég ákvað að reyna að hafa þetta frekar myndrænt. Þannig að ég fór til Íslands og tók upp náttúruhljóð frá hverum, sjónum, fossum og ánum og blandaði því við tónlistina til að búa til meira andrúmsloft,“ segir Jósep en hann lagði stund á hljóðblöndun við skólann.

Þess má geta að Jósep fékk inngöngu inn í SAE Institute þrátt fyrir að hafa ekki lokið stúdentsprófi. „Ég hef reyndar bara klárað 6 einingar við framhaldskóla,“ segir Jósep sem kláraði einnig nám í rafmagnsgítar- og kassagítarsmíði við lítinn skóla í bænum Totnes í Englandi.

Fékk inni í virtum háskóla í Bandaríkjunum
Jósep hlaut nýverið inngöngu í hinn virta háskóla Berklee í Boston í Bandaríkjunum. „Berklee er tónlistarskóli sem kennir allt frá því að spila á hljóðfæri, upptökur og síðan tónlistarviðskiptafræði. Þetta er einn af virtustu tónlistarskólunum í dag, svo það var mjög gaman að komast þarna inn og stunda nám hjá þeim,“ segir Jósep.

„Allir kennararnir hafa verið að vinna í bransanum úti og flestir ennþá á fullu að vinna innan bransans. Þannig að allt námsefni uppfært mjög reglulega til að fylgja öllum nýjungum sem eru að birtast í tónlistarbransanum í dag,“ segir Jósep en hann leggur stund á tónlistar-viðskiptafræði (e. music business). Hann er fyrsti Íslendingurinn sem leggur stund á þetta nám í Berklee.


Ljósmynd/ Bertha Ágústa Einarsdóttir.

Selfyssingar búsettir í Þýskalandi, í fjarnámi frá Bandaríkjunum
Jósep býr í Berlín í Þýskalandi ásamt unnustu sinni Berthu Ágústu Einarsdóttur, sem einnig er Selfyssingur. Þau eru bæði í fjarnámi við bandaríska skóla, hún við Academy of Arts University í San Fransisco að læra ljósmyndun og hann við Berklee í Boston.

„Báðir þessir skólar hafa verið að gera það mjög gott í fjarkennslu og hefur Berklee verið að vinna verðlaun upp á síðkastið fyrir framúrskarandi fjarnám,“ segir Jósep en hann og Bertha hafa búið í Berlín í tvö ár. „Það er allgjör snilld að búa hérna, allt iðandi í menningu og list. Sem er rosa gott fyrir okkur miðað við hvað erum að mennta okkur við.“


Jósep ásamt unnustu sinni, Berthu Ágústu Einarsdóttur. Ljósmynd/ Bertha Ágústa Einarsdóttir.

Jósep segir að það geti þó stundum verið vesen að vera ekki staðsettur í Bandaríkjunum. „Mest af þessu tengist bransanum þar. Ég hef sett mér þá reglu í flestum verkefnum að ég tengi það við Ísland eða Evrópu sem hefur bara sýnt sig að sé að gera góða hluti fyrir mig. Kennararnir eru oftast mjög spenntir að sjá aðra sýn á námsefnið og hvernig þetta er annarstaðar. En þetta getur gert það að verkum að maður þarf að stunda meiri rannsóknarvinnu í kringum verkefnin. Það er bara af hinu góða og þá verður maður betur undir það búinn að byrja á þessu heima,“ segir Jósep.

Vill aðstoða unga tónlistarmenn
Aðspurður hver sé stefnan eftir nám segir Jósep það vera svolítið erfiða spurningu. „Það eru svo margar hugmyndir sem maður er með en núna þarf maður bara að byrja á að setja þær niður og skipuleggja sig og sjá hvað af þessu er geranlegt og stendur undir sér.“

„Planið verður þó að öllum líkindum eitthvað í kringum tónlist þar sem allt sem maður er búin að læra tengist tónlist. Mig langar til dæmis að aðstoða unga tónlistarmenn við að taka fyrstu skrefin inn í tónlistarbransann. Og auðvitað er líka planið að vera með stúdíó þar sem maður tekur upp tónlist. En síðan veit maður aldrei hvað framtíðin gefur manni “ segir Jósep.

„Það stendur til að koma heim aftur, allavega eins og er. Það er alltaf eitthvað sem dregur mann aftur heim til Íslands og flestar hugmyndir sem maður hefur um framtíðina tengjast Íslandi. En síðan er spurningin hvort maður skoði eitthvað meira af Evrópu áður og prufi að búa annarsstaðar. Það er margt í boði hérna sem væri gott fyrir framtíðina,“ segir Jósep.

Þess má geta að Jósep var á sínum tíma valinn trommuleikari Músíktilrauna árið 2012 með hljómsveitinni The Wicked Strangers. Hljómsveitin hafnaði einnig í þriðja sæti og hlaut í framhaldi styrk frá Reykjavík loftbrú til að fara á túr til Bandaríkjanna.

Þrátt fyrir öll þessi afrek tengd skóla og tónlist telur Jósep mesta afrekið sitt vera á öðru sviði. „Ætli stærsta afrekið sé ekki að hafa fengið „já“ frá henni Berthu,“ segir hann að lokum.

Fyrri greinÁrborg og Fossbúar framlengja þjónustusamning
Næsta greinSelfossveitur skila góðum hagnaði