Stjórn Félags eldri borgara á Selfossi beinir þeim eindregnu tilmælum til framkvæmdastjóra og bæjarstjórnar Árborgar að hefja tafarlaust viðræður við heilbrigðisyfirvöld um að Kumbaravogi verði ekki lokað fyrr en væntanlegt hjúkrunarheimili hefur verið opnað á Selfossi.
Í ályktun frá stjórn félagsins kemur fram að vegna óvæntra frétta af skyndilegri lokun dvalar- og hjúkrunarheimilisins að Kumbaravogi fyrir marslok sé því beint að bæjaryfirvöldum að bregðast skjótt við og að þau einbeiti sér að viðunandi lausn þessa máls fyrir vistfólkið á Kumbaravogi.
Ályktunin var lögð fyrir fund bæjarráðs í morgun og í bókun bæjarráðs kemur fram að bæjaryfirvöld séu í sambandi við heilbrigðisyfirvöld vegna málsins og fylgist með framvindu mála.
Sunnlenska.is hefur greint frá því að stefnt sé að því að opna nýtt 50 rýma hjúkrunarheimili á Selfossi á öðrum ársfjórðungi 2019. Á fundi bæjarráðs í síðustu viku óskaði bæjarráð eftir því að byggingu nýja heimilisins yrði flýtt sem kostur er og ítrekaði að fulltrúar sveitarfélagsins hafi lagt áherslu á að stækka þyrfti heimilið.
TENGDAR FRÉTTIR:
Bæjarráð vill flýta byggingu og stækka hjúkrunarheimilið á Selfossi