Almennur félagsfundur Verslunarmannafélags Suðurlands sem haldinn var í gærkvöldi hvetur félagsmenn VMS og félaga annarra stéttafélaga landsins að sniðganga þau fyrirtæki, sem hafa boðað hækkanir á vöru og þjónustu nú í upphafi árs.
Þá fordæmir fundurinn hækkanir ríkisins á gjaldskrá heilbrigðisþjónustu, sem tóku gildi nú um áramótin.
Fundurinn vekur einnig athygli á því að gengi íslensku krónunnar hefur styrkst mikið á síðustu misserum, sem gefur enn frekar tilefni til engra hækkana, miklu fremur lækkun á vörum og þjónustu.
„Það hefur aldrei verið brýnna en nú að þjóðin sameinist um að verðbólga lækki og verði aldrei meiri en 2,5% í lok árs 2014,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Fundurinn hvetur félagsmenn sína eindregið til að taka þátt í rafrænni atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning.