„Félagsvist er bara svo mannbætandi“

Jóna Ástríður Jóhannesdóttir hefur séð um félagsvistina á Selfoss síðan í nóvember 2023. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Í Grænumörk 2 á Selfossi hittist hópur fólks og spilar félagsvist tvisvar í viku, mánudaga og fimmtudaga klukkan 19:30. Fólk kemur víðsvegar að á Suðurlandi og er aldursbilið nokkuð breytt en sá yngsti er 9 ára og sá elsti 95 ára.

Jóna Ástríður Jóhannesdóttir er sú sem á heiðurinn af þessu framtaki, sem hefur heldur betur slegið í gegn hjá þeim sem félagsvistina stunda. Jóna byrjaði með félagsvistina í nóvember 2023, þegar hún sá að það var mikil þörf á afþreyingu fyrir fólk eftir klukkan fjögur á daginn. Hún segir að í þessum hóp er stór hluti sem er félagslega einangraður og á hún sér þá ósk að ná til yngra fólks í auknum mæli, því að samvera er allra meina bót og maður er manns gaman.

„Fólk talaði um að það væri svo lítið um að vera á Selfossi þegar þú kemur heim úr vinnunni. Þú ert kannski að vinna til klukkan fjögur eða fimm og þá er ósköp lítið um að vera annað en að sitja heima. Ég er einhvern veginn þannig að ég er ekkert að bíða eftir því að aðrir geri hlutina, svo að ég dreif bara í þessu sjálf. Ég var þó alveg að gefast upp fyrstu mánuðina, ég viðurkenni það alveg. Það tók svolitla stund að ná þessu af stað,“ segir Jóna í samtali við sunnlenska.is.

Fólk kemur aftur og aftur
Jóna segir að leiga á sal sé stærsti kostnaðarliðurinn við þetta og sé leigan í raun alveg að sliga hana „Ég þarf að láta kosta þúsund krónur inn til að standa undir kostnaði. Ég er náttúrulega alltaf með vinninga og smá djús, kaffi og svona. Og af því að það er ekki áskrift að þessu þá veit ég ekki fyrirfram hvað það koma margir. Við höfum verið með þrjú borð á mánudögum, mánudagarnir hafa verið lélegri en svo höfum við farið upp í átta borð á fimmtudögum.“

Þegar blaðamaður sunnlenska.is leit við var glatt á hjalla og augljóst að fólk naut samverunnar. „Við höfum ofsalega gaman. Ég held að ég hafi ekki fengið neinn hingað inn sem hefur ekki komið aftur og aftur,“ segir Jóna og bætir því við að þetta sé um tveggja tíma prógram að spila félagsvistina.

Félagsvistin hefur heldur betur slegið í gegn. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Dýrmætur félagsskapur
Jóna hefur reynt að fá bæjaryfirvöld í Árborg með sér í lið, varðandi húsnæði og annan kostnað, en hefur talað fyrir daufum eyrum.

„Ég talaði við þau upp á bæjarskrifstofu og ég sagði þeim að ég upplifði það að þau héldu að það sé enginn einmana eftir klukkan fjögur. Ég er hérna með ekkla og ekkjur, sem sitja alein heima á kvöldin. Ég finn hvað þetta gefur fólki mikið upp á félagsskapinn að gera. Að komast út úr einangruninni. Félagsvist er bara svo mannbætandi.“

Eygló Gunnlaugsdóttir er ein af þeim spilar félagsvist og hefur gaman af. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Félag eldri borgara býður þér í félagið sextugt en það er fullt af sextugu fólki sem er enn á vinnumarkaði. Það er ekkert í gangi eftir klukkan fjögur fyrir eldri borgara.“

Jóna segist gjarnan vilja fá krakka úr skólanum og kenna þeim félagsvist. „Þetta tekur þau jafnvel frá einelti. Þú þarft alltaf að vera að skipta um borð, þú situr ekki kyrr, kynnist nýju fólki og svo vinnur þetta líka á félagsfælni. Já, og nær þeim úr tölvunni og símanum.“

Þakklát fyrir alla styrki
Fyrstu fimm mánuðina þurfti Jóna að borga með félagsvistinni en hún segir sjálf að hún sé svo þver að hún hafi neitað að gefast upp.

„Kjarninn var mikið til fólk hér úr húsinu og þau hafa haldið rosalega mikið tryggð við mig. Það bjargaði desember hjá mér að ég fékk svo mikið af gjafabréfum til að gefa í vinninga og þar var Sjóvá stærst. Einnig gáfu Karl úrsmiður, Apótek Suðurlands, Litla garðbúðin og Home & Hobby gjafabréf.“

Jóna segir að allir geti spilað félagsvist. „Ef þú kannt á spilin þá ertu ekki lengi að læra félagsvist. Það er frjáls mæting, fólk mætir ef það vill vera með. Kostar 1.000 krónur að vera með og allir velkomnir,“ segir Jóna að lokum.

Þetta gjörbreytir vetrinum
Sigurbjörg Helgadóttir er ein af þeim sem hefur spilað félagsvistina frá upphafi. Hún segir að þessi félagsskapur geri mikið fyrir hana.

„Það er alveg frábært að Jóna hafi komið þessu á. Ég er aðflutt og ég viðurkenni það alveg að ég þjáðist af þunglyndi yfir dimmustu tímana á vetrinum. Síðan Jóna byrjaði með þetta þá er þetta allt annað, því það að hitta fólk er aðalmálið.“

Sigurbjörg Helgadóttir segir félagasskapinn dýrmætan og það að spila félagsvist tvisvar í viku hafi gjörbreytt vetrinum hjá henni. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„En svo er eitt. Þeir sem sjá um húsnæðið sem eldri borgarar hafa – hverjir lögðu fé í það? Það var fólk í Árborg. Hverjir leggja fram fé til að reka það? Það er fólk í Árborg. Og ætlist þið til þess að fólk í Árborg, þegar það er búið með starfsævina sína, 67 ára og 70, að það sé komið í náttfötin klukkan sex? Það er enginn sveigjanleiki og það er ekkert hugsað,“ segir Sigurbjörg ómyrk í máli.

Fyrir þá sem ekki vita þá er salur Sveitarfélagsins Árborgar að Grænumörk 5 en í þeim sal fer fram félagsstarf eldri borgara á daginn. Félagsvistin er aftur á móti spiluð í leigðum sal að Grænumörk 2.

„Ég get bara vísað í það að til dæmis hjá Félagi eldri borgara í Kópavogi, þar er salnum lokað klukkan fjögur á daginn en opnað aftur klukkan átta á kvöldin á mánudögum. Þá er spiluð félagsvist og þannig hefur það verið í mörg ár. Það eru ekki færri en 24 borð venjulega sem koma þangað. Eigum við að trúa því að það sé enginn maður hér á Selfossi sem getur séð um húsið og leyft okkur að spila heldur en að Jóna sé að ganga grátandi hérna á milli til þess að fá húsnæði fyrir okkur. Þetta er á okurverði en við eigum rétt á því að vera í þessu húsi.“

„Ég er bráðum búin að búa í Árborg í sjö ár. Mér finnst yndislegt að vera hérna. Fólkið hérna, sem er með mér í félagsvistinni, er náttúrulega algjörir englar. Þetta gjörbreytir vetrinum og ég er ekki ein um það – það segja það allir hérna,“ segir Sigurbjörg að lokum.

Fyrri greinGul viðvörun vegna hvassviðris og rigningar
Næsta greinSveitarfélögin krefjast lausna við læknaskorti