Bæjaryfirvöld í Árborg geta ekki annað en gefið jákvæða umsögn til sýslumanns í þeim tilfellum sem óskað er eftir minniháttar atvinnustarfsemi í heimahúsum, svo sem tímabundna íbúðarleigu eða heimagistingu.
Þetta segir Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri sveitarfélagsins í samtali við Sunnlenska.
Mikið hefur borið á kvörtunum og umræðu um aukna útleigu íbúðarhúsnæðis í hverfum þar sem ekki er skipulagt undir þjónustu, bæði á Eyrarbakka og á Selfossi.
Nýverið veitti bæjarráð jákvæða umsögn gagnvart slíkri gistiþjónustu í húsi við Túngötu á Eyrarbakka og vakti sú ákvörðun upp talsverðar umræður um heimildir til slíks. Ásta bendir á að það sé sýslumaður sem veitir slík leyfi, bæjaryfirvöld eru einungis umsagnaraðili.
„Það þarf að hafa skilgreininguna á þjónustunni á hreinu, en í íbúðarhverfum er heimilt að hafa minniháttar atvinnustarfsemi þar sem húsnæði uppfyllir allar kröfur. Slíkt á við þetta tilfelli,“ segir Ásta og bætir við að ráðist hafi verið á nokkuð ítarlega skoðun á reglum í tengslum við þetta. Samkvæmt lögum þurfa hinsvegar farfuglaheimili og gistiheimili að vera á svæði sem skipulagt er sem þjónustusvæði.
Talsvert er um að íbúðarhúsnæði á Suðurlandi sé auglýst til skammtímaleigu á vefnum, einkanlega á vefsíðunni AirBnB. Þar er ekki óalgengt að gisting fyrir einn sé seld út á sjö til fimmtán þúsund krónur.