Ferðaþjónustuaðilar undir Eyjafjöllum mótmæltu harðlega skilti sem sett var upp á svæðinu fyrir skömmu og telja að það sýni á engan hátt þann veruleika sem svæðið býður upp á í dag. Skiltið hefur verið tekið niður.
Með skiltinu var fólk varað við öskusvæðinu og tjón sem geti hlotist af því að ferðast um svæðið.
Að sögn Jóns Guðmundssonar, sem rekur ferðaþjónustu í Drangshlíð undir Eyjafjöllum, eru ferðaþjónustuaðilar á svæðinu orðnir langþreyttir á þeirri neikvæðu mynd sem margir draga upp. ,,Hún má ekki festast í landkynningunni,“ sagði Jón. Hann sagði að svo virtist sem sumar bílaleigur væru að hafa fjárhagslegan ávinning af því að innheimta aukagjald vegna eldgossins.
Jón segist hafa fengið vissu fyrir því hjá Vegagerðinni að hún teldi ekki lengur þörf að vara sérstaklega við svæðinu en honum virtist sem bílaleigurnar ætluðu að draga lappirnar sem hann taldi vera áhyggjuefni. Aðspurður sagði Jón að það hefði líklega orðið um 30% samdráttur í ferðaþjónustunni hjá þeim vegna eldgossins og það ætti við um fleiri á þessu svæði.
Vilhjálmurs Sigurðsson, sölu- og markaðsstjóra hjá ALP bílaleigunni, segir að þar á bæ hafi ekki verið lagt aukagjald á þá sem ferðast um svæðið þó nokkrir bílar frá þeim hafi skemmst þar í kringum gosið.