Samkomulag hefur náðst milli ábúenda í Ytri-Skógum og ferðaþjónustuaðila um aðgengi um vegslóða frá Skógum upp á Skógaheiðina, sem liggur inn að Fimmvörðuhálsi.
Ferðamenn hafa sótt í að aka þessa leið upp að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Ábúendur hafa verið ósáttir við umferðarþungann þar sem ekið er um hlaðið á Ytri-Skógum. Þeir hafa því brugðist við með því að læsa hliði um vegslóðann.
Samkomulagið sem náðist á fundi sveitarstjóra og formanns byggðaráðs með ábúendum felur í sér að ferðaþjónustuaðilar sem hafa selt ferðir upp á Fimmvörðuháls munu fá lykil sem gengur að hliðinu við Ytri-Skóga en aðgengi verður að öðru leyti lokað.
Ágreiningur um vegstæðið á sér meira en tveggja áratuga sögu en ágangur ferðamanna vegna eldgossins í fyrra hefur ýtt enn frekar undir hann. Sagði Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, að reynt yrði eftir megni að finna framtíðarlausn.
Málið verði rætt á fundi héraðsnefndar 22. júní og skoðað hvort ekki sé hægt að breyta deiliskipulagi þannig að ásættanleg lausn fáist til fyrir alla málsaðila.