Björgunarsveitin Eyvindur á Flúðum sótti nú í morgun spænskan ferðalang sem lenti í vandræðum þegar hann hugðist ganga yfir Kjöl.
Maðurinn gekk upp frá Gullfossi í gær og gisti í tjaldi sínu í nótt, um fjóra km. frá Sandá. Mikið rigndi hins vegar á svæðinu svo allt hans hafurtask, bæði föt og búnaður, varð rennandi blautt.
Í morgun gerði hann tvær tilraunir til að hringja í Neyðarlínu en í bæði skiptin slitnaði samtalið áður en hann gat gert grein fyrir erindi sínu. Honum tókst þó að senda GPS punkt til Neyðarlínu. Þá greip hann til þess ráðs að senda skilaboð til vinar á Spáni sem hafði samband við sendiráð Íslands í Osló sem svo lét Neyðarlínu á Íslandi vita.
Þegar björgunarsveitin kom að manninum, fyrir um klukkustund, var hann á gangi á veginum, blautur og kaldur, klæddur gallabuxum og flíspeysu.
Hafði hann skilið búnað sinn eftir á næturstað og ætlaði að reyna komast til byggða.
Björgunarsveitin sótti búnaðinn og flutti manninn til Flúða. Þar fær hann aðstoð við að þurrka föt og búnað áður en hann heldur til Reykjavíkur.