Franskur ferðamaður féll ofan í hver í Reykjadal ofan við Hveragerði í dag með þeim afleiðingum að hann brenndist illa á kvið og fótum.
Slysið átti sér stað laust eftir kl. 13 í dag en maðurinn var að taka myndir á svæðinu, þegar hann rann ofan í hverinn og lenti í vatni upp fyrir mitti.
Maðurinn var á ferð ásamt eiginkonu sinni þegar slysið gerðist og hringdu hjónin þegar eftir aðstoð.
Frakkinn var fluttur á heilsugæslustöðina í Hveragerði og þaðan á slysadeild. Hann er með 1. stigs bruna á kvið og 1. og 2. stigs bruna á báðum fótum, mest við ökklana.