Ferðamaður staddur við Álftavatn að Fjallabaki slasaðist að því er virðist illa á mjöðm er hann fauk í roki snemma í kvöld.
Björgunarsveitarhópar staddir á svæðinu m.a. í Hálendisvakt björgunarsveita eru komnir á staðinn og hafa útbúið sjúklinginn til flutnings. Reiknað er með að honum verði ekið niður í Fljótshlíð í sjúkrabíl.
Maðurinn verður þó líklega ekki kominn til byggða fyrr en um miðnætti enda um hálendisveg að fara. Ekki var talið unnt að koma þyrlu á staðinn vegna veðurs. Frekar slæmt veður er nú á miðhálendinu eins og spáð hafði verið.