Fyrir jól skrifuðu forsvarsmenn Gatnamóta ehf undir samning við Ferðamálastofu um samstarf við uppbyggingu ferðamanna- og þjónustumiðstöðvar á mótum Suðurlandsvegar og Biskupstungnabrautar.
Félagið Gatnamót hefur í nokkurn tíma unnið að undirbúningi þessa verkefnis en með nýja samningnum verður Ferðamálastofa ráðgefandi aðili í verkefninu og mun koma að hugmyndavinnu og þróun verkefnisins, eins og segir í samningnum sem undirritaður var af Ólöfu Ýrr Atladóttur, ferðamálastjóra og Hallgrími Óskarssyni, framkvæmdastjóra Gatnamóta ehf.
Að sögn Hallgríms munu fulltrúar Ferðamálastofu taka þátt í vinnufundum Gatnamóta um málið, þegar unnið er að þróun verkefnisins. „Einnig mun Ferðamálastofa rýna vinnugögn og koma með tillögur um betrumbætur svo að ferðamannamiðstöðin megi verða leiðandi í sinni starfsemi og verða þannig miðja ferðamennsku, ekki bara á Suðurlandi, heldur á Íslandi því þótt áformað sé að staðsetja ferðamannamiðstöðina á Suðurlandi er lögð mikil áhersla á sterk tengslum við helstu aðila í ferðamennsku á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Hallgrímur.
Einnig gerir samningurinn ráð fyrir að Ferðamálastofa leiðbeini Gatnamótum ehf. við styrkingu tengslaneta innan ferðaþjónustunnar svo hægt sé að koma á sem víðtækustu samstarfi við aðstandendur ferðamannamiðstöðvarinnar og aðila í ferðaþjónustu.
„Við bindum miklar vonir við að samstarfið við Ferðamálastofu leiði til þess að ferðamannamiðstöðin í Árborg muni tengjast ferðamennsku á öllu Íslandi sterkum böndum og verði leiðandi í að taka á móti ferðamönnum á leið sinni um landið,“ sagði Hallgrímur ennfremur.