Um klukkan sjö í kvöld voru björgunarsveitir á Suður- og Austurlandi kallaðar út eftir að neyðarboð barst frá tveimur ferðamönnum á Vatnajökli.
Ferðamennirnir eru á ferð yfir jökulinn, þeir höfðu skilið eftir ferðaáætlun hjá Safetravel og erum með neyðarsendi með sér. Neyðarboðið barst frá Grímsvötnum en ekki næst samband við þá.
Ellefu björgunarsveitir voru kallaðar út og er björgunarsveitarfólkið á leiðinni á jökulinn að leita að ferðalöngunum á vélsleðum og snjóbílum.
Á jöklinum er nú snjókoma og þónokkur vindur og því ekki kjöraðstæður fyrir björgunarsveitafólk að sækja á svæðið, gera má ráð fyrir því að veður lægi ekki fyrr en í nótt.