Flutningur Herjólfs frá Þorlákshöfn til Landeyjahafnar hefur eitthvað vafist fyrir ferðamönnum sem margir hverjir koma að tómum kofanum í Þorlákshöfn.
Á sunnudagsmorgun kom þarna hópur þýskra ferðamanna á leið til Vestmannaeyja, sem greip í tómt, eins og svo margir aðrir. Engar merkingar eru á bryggjunni sem vísa ferðamönnum yfir í Landeyjahöfn og því beið hópurinn á bryggjunni – en ekki kom báturinn.
Við höfnina er hvergi að finna neinar upplýsingar um að skipsins sé ekki að vænta og þaðan af síður neinar upplýsingar um hvernig finna megi Herjólf og Landeyjahöfn.
Í sumum tilvikum hefur það komið fyrir að ferðamenn sem koma að austan, úr Norrænu á Seyðisfirði, aki framhjá Landeyjahöfn til Þorlákshafnar og bíði þar.