Framundan er ein stærsta ferðahelgi vetrarins og má reikna með að þúsundir fjölskyldna leggi land undir fót.
Hvort sem um er að ræða ferðalag í sumarbústaðinn, göngutúr eða til fjalla vill Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetja fólk til að ferðast á öruggan hátt.
Örfá atriði í undirbúningi geta gert gæfumun í ferðalaginu. Kanna skal aðstæður og veðurspá og taka með réttan búnað s.s. fjarskiptatæki og öryggisbúnað.
Ferðaáætlun á alltaf að gera og skilja eftir hjá tengilið en það má t.d. gera á www.safetravel.is og er hún þá til staðar hjá björgunarsveitum fari eitthvað úrskeiðis.
Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur alla til að hafa þessi atriði í huga og óskar ferðalöngum gleðilegra og öruggra páska.