Fer þessu ekki að linna?

Margir hafa kvartað yfir veðrinu þennan veturinn en Sunnlendingar hafa þó ekki þurft að kvarta yfir snjóþyngslum eins og þeim sem voru veturinn 1980 til 1981.

Örn Óskarsson, framhaldsskólakennari á Selfossi, birti skemmtilegar myndir á Facebooksíðu sinni nú í vikunni en þær voru teknar á Selfossi í mars árið 1981 og óhætt að segja að allt hafi verið á kafi í snjó.

„Sumir eru að býsnast yfir snjó og óveðrum núna í vetur. Ég mátti til með að skanna inn myndir frá því í marsbyrjun 1981 til að sýna alvöru snjóskafla hér á Selfossi. Þetta var síðasti veturinn hér um slóðir sem snjóinn skóf í almennilega skafla. Síðan hefur þetta verið ósköp rólegt,“ segir Örn í Facebookfærslu sinni.

Snjóþyngsli voru með eindæmum mikil á Suðurlandi þennan veturinn og í leysingum í lok janúar urðu meðal annars mestu flóð í Hvítá síðan 1965.

Vegurinn yfir Hellisheiði hefur líklega sjaldan eða aldrei verið jafn oft ófær og í byrjun árs 1981 en heiðin var þá lokuð meira eða minna frá janúar fram í mars. Skaflar meðfram þjóðveginum voru þá orðnir margra metra háir og snjóruðningstæki og blásarar höfðu í nógu að snúast.

Í lok mars 1981 birtist myndasyrpa með snjómyndum í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Fer þessu ekki að linna?“, sama spurning og margir eru að spyrja sig í dag.


Fagurgerði skartar sínu fegursta í vetrarsólinni. Allt ófært. Ljósmynd/Örn Óskarsson


Grænuvellirnir og sýsluskrifstofan við Hörðuvellina fjærst á myndinni. Ljósmynd/Örn Óskarsson


Myndarlegir skaflar á Árveginum. Ljósmynd/Örn Óskarsson

Fyrri greinMoss fór á kostum í sigri á Blikum
Næsta greinBúist við stormi syðst á landinu