Hópur ferðalanga í Kerlingarfjöllum óskaði eftir aðstoð björgunarsveita snemma í morgun, þar sem hópurinn hafði lent í vandræðum.
Um var að ræða fólk á ferð í fimm jeppum en ekki vildi betur til en þau lentu í slæmri færð og festum.
Björgunarsveitir af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu héldu af stað í morgun og upp úr klukkan 12 var búið að losa alla bílana og koma þeim af stað í átt til byggða.
Björgunarsveitir höfðu einnig meðferðis eldsneyti sem var sett á bílana, enda var það orðið af skornum skammti eftir langan tíma í festu.
Upp úr klukkan 15 í dag voru allir komnir úr mestu ófærðinni og hópurinn gat haldið áleiðis til síns heima án aðstoðar.