Klukkan 19:45 í gærkvöldi voru björgunarsveitir í Rangárvallasýslu og Vík í Mýrdal kallaðar út vegna ungs pars sem var á göngu á Fimmvörðuhálsi. Systir konunnar hafði verið að fylgjast með framgangi göngunnar erlendis frá og heyrt í þeim að veðrið væri að versna, myrkur að skella á og þeim litist ekki nógu vel á blikuna.
Systurinni fannst sem fólkið væri ekki lengur á göngu en ekki komin í skála og hafði samband því við Neyðarlínuna.
Björgunarsveitir fóru af stað og héldu upp á Fimmvörðuháls frá Skógum, ásamt því að gönguhópar héldu inn á Goðaland til að fara upp á hálsinn Þórsmerkurmegin. Veðrið var orðið slæmt, gekk á með snjóéljum og nokkuð hvasst.
Sem betur fer þurfti ekki að leita lengi að fólkinu, en björgunarmaður á sexhjóli keyrði fram á það rétt við Fimmvörðuskála. Þá amaði ekkert að þeim, en þau höfðu verið í skálanum í einhverja daga og gengið út frá honum dagsferðir.
Veður gærdagsins hafði hins vegar tafið þau til baka í skála. Björgunarfólk skildi við þau í skálanum þar sem þau voru búin að koma hita á skálann og voru ánægð að vera komin inn úr veðrinu. Björgunarfólk hélt til byggða og var aðgerð lokið rétt fyrir miðnætti.