Erlendur ferðamaður féll í Svínafellslón í Öræfum um klukkan 13:20 í dag. Björgunarsveitir af svæðinu voru kallaðar út ásamt sjúkrabíl frá Klaustri og þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Maðurinn komst úr lóninu af sjálfsdáðum rétt áður en björgunarsveitarmenn úr Öræfum komu á vettvang. Hann var kaldur og hrakinn eftir volkið, en varð ekki meint af.
Þyrlunni, sem og öðru hjálparliði hefur verið snúið frá vettvangi og verður viðkomandi fluttur á Kirkjubæjarklaustur til frekari aðhlynningar.