Ferðamaður rotaðist við Gullfoss

Um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Erlendur ferðamaður var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landsspítalann í dag eftir að hann féll í hálku við Gullfoss og rotaðist.

Vettvangshjálparlið frá Björgunarfélaginu Eyvindi á Flúðum var fyrst á vettvang og hlúði að manninum en síðan komu sjúkrabílar og lögregla á staðinn. Vegna ástands mannsins var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti manninn til Reykjavíkur.

Þá slasaðist kona í Grímsnesinu í dag þegar hún rann í hálku. Hjálparsveitin Tintron, Björgunarsveit Biskupstungna og Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni voru kallaðar til aðstoðar við sjúkraflutninga en bera þurfti konuna um 500 metra leið í sjúkrabíl.

Að sögn Viðars Arasonar, formanns svæðisstjórnar björgunarsveita í Árnessýslu, gengu verkefni björgunarsveitanna vel í dag en vegna smitvarna hafa allar björgunarsveitir virkjað aftur hópaskiptingu og sóttvarnir innan sinna raða.

„Við gætum þess mikið að passa sóttvarnir og fjölda bjarga sem sendar eru á vettvang. Það er gætt að því að blanda ekki hópum að óþörfu, til þess að minnka áhættuna á útsetningu fyrir smitum. Björgunarsveitir eru mikilvægur þáttur í neyðarvarnakerfinu og keðjan má ekki slitna, þó að við getum teygt á henni,“ segir Viðar.

Fyrri greinFengu tiltal frá lögreglu vegna sóttvarna
Næsta greinSelfoss í toppsætið