Á nýju ári verða breytingar á akstri Árborgarstrætó þegar sunnudagar bætast við aksturáætlunina, ferðum fjölgar milli þéttbýliskjarna og frítt verður fyrir alla í ferðir innan Árborgar.
Á sama tíma tekur Guðmundur Tyrfingsson ehf. við akstrinum innan Árborgar af Strætó bs.
Í kjölfar akstursútboðs fyrr á árinu þar sem Sveitarfélagið Árborg samdi við lægstbjóðanda, GTS ehf., hefur verið unnið að breytingum á tímatöflu Árborgarstrætó til að fjölga ferðum á hverjum degi.
Hluti breytinganna tóku gildi strax í haust en frá og með áramótum verður frítt fyrir alla aldurshópa í Árborgarstrætó, ferðum fjölgar í tíu á virkum dögum og fimm um helgar og akstur á sunnudögum bætist við svo vikuaksturinn er orðin samfelldur
Þar sem GTS ehf. sjá um mest allan akstur fyrir sveitarfélagið verður sérstakur litur í framrúðu bílanna fyrir hverja aksturleið til auðkenningar fyrir notendur. Árborgarstrætóinn verður því með appelsínugulan miða, frístundaaksturinn innan Selfoss verður með fjólubláan miða, skólaakstur fyrir BES verður með hvítan miða, skólaakstur fyrir Selfoss verður með grænan miða og sundakstur úr Sunnulæk verður með gulan miða.