Fergja dúk á þaki Matvælastofnunar

Björgunarsveitarmenn í Björgunarfélagi Árborgar vinna nú að því að fergja þakdúk á húsi Matvælastofnunar í austurbæ Selfoss en mjög hvasst er í bænum.

Björgunarsveitarmennirnir nota krana til þess að hífa bíldekk upp á þak hússins og dreifa þeim um þakið til að hefta fok þakklæðningarinnar.

Þá hafa nokkur trampólín, fánaborgir og fleiri lausamunir verið á ferðinni á Selfossi og í Hveragerði í dag.

Ökumenn hafa einnig lent í vandræðum og meðal annars fauk hestakerra á hliðina í Kömbunum nú síðdegis. Lögreglan á Selfossi varar ökumenn með eftirvagna við sterkum vindhviðum.

Fyrri greinÖll framboðin starfa saman
Næsta greinHeiðra minningu Þorkels