Stór hluti fasteignarinnar Austurvegur 1-5 á Selfossi, eða Kjarnans svokallaða, sem meðal annars hýsir verslun Krónunnar, hefur verið seldur.
Seljandi er félagið Kjarnafasteign, sem er í eigu Karls Steingrímssonar, oft kenndur við Pelsinn. Kjarnafasteign átti 82% alls húsnæðisins og hefur eignin verið á sölu frá árinu 2011 en í tilkynningu frá Stakfelli fasteignasölu, sem sá um söluna, kemur fram að kaupverðið sé trúnaðarmál. mbl.is greinir frá þessu.
Kaupandi eru Höfðaeignir, sem er dótturfélag Festa. Á síðasta ári tók Festi yfir rekstur Kaupáss, sem rekur m.a. matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar.
Austurvegur 1-5 var áður í eigu félagsins Vindasúla ehf., félags sem einnig var í eigu Karls. Félagið Vindasúlur ehf. var hins vegar úrskurðað gjaldþrota árið 2011 en á árinu 2009 var fasteignin færð yfir í Kjarnafasteign ehf.