Festist í sandbleytu á lokuðum vegi

Síðastliðinn fimmtudag var lögreglan á Hvolsvelli við eftirlit að Fjallabaki í grennd við Landmannalaugar þegar aðstoðarbeiðni kom frá ökumanni sem fastur var í Tungnaá.

Hálendisvakt Landsbjargar brást skjótt við og fann ökumanninn, sem var skammt suðvestan við Stakahnjúk og utan vega. Lögreglan fór því á vettvang ásamt landverði.

Ökumaðurinn hafði farið þónokkurn spöl út fyrir veginn áður en hann sat fastur í sandbleytu en leiðin er lokuð umferð með bannmerki vegna sandbleytu. Ökumaðurinn var kærður fyrir að aka utan vega og fyrir að aka inn á lokuðum vegi.

Lögreglan á Hvolsvelli hefur verið með og mun áfram vera með eftirlit á hálendinu, þar sem fylgst verður með ástandi ökumanna og akstri utan vega.

Fyrri greinÍbúum fækkar við ströndina
Næsta greinBjörgvini gengur vel á Heimsleikunum