Festist undir rafskutlu ofan í skurði

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stúlka á tólfta aldursári handleggsbrotnaði þegar sexhjól, sem hún var farþegi á, valt við fjársmölun í Grafningi síðastliðinn laugardag.

Stúlkan var flutt af nærstöddum á sjúkrahús til aðhlynningar.

Sama dag slasaðist maður á rafskutlu þegar hann missti stjórn á henni við Tryggvagötu við Norðurhóla á Selfossi og lenti þar í skurði. Vegfarendur komu honum til aðstoðar þar sem hann var fastur undir rafskutlunni og að hluta til í vatni sem er í skurðinum. Meiðsl mannsins eru ekki talin alvarleg.

Síðastliðinn fimmtudag slasaðist ferðamaður á öxl í skipulagðri ferð við Jöklasel á Skálafellsjökli þegar hann velti snjósleða sem hann ók. Talið var að maðurinn væri beinbrotinn en farþegi á sleðanum slapp hinsvegar lítið eða ómeiddur. Fólkið var flutt til aðhlynningar á sjúkrahúsið á Höfn.

Þá slasaðist maður við vinnu sína á athafnasvæði Vegagerðarinnar í Vík síðastliðinn miðvikudag þegar hann féll af vörubílspalli. Maðurinn slasaðist á fæti en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var ekki vitað nánar um eðli meiðslanna.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinSelfoss Car Rental skiptir um eigendur
Næsta greinHornfirðingar skora á ráðherra og þingmenn að endurskoða samgönguáætlun