Rúta festist í vegkanti í Þrengslunum um klukkan hálf eitt í nótt eftir að vegkantur gaf sig undan þunga bílsins.
Um borð voru um 50 farþegar, háskólanemar á leið til höfuðborgarinnar eftir vísindaferð.
Rútunni hafði verið lagt úti í kanti til að hleypa fólki út sem þurfti að kasta af sér vatni. Kanturinn gaf sig þá undan rútunni svo að hún festist í kantinum. Ekki var talið óhætt að fólkið færi út úr rútunni og því var björgunarsveitin Mannbjörg í Þorlákshöfn kölluð á vettvang. Bíll hennar var bundinn við rútuna og síðan var fólkinu hleypt út.
Háskólanemarnir voru fluttir á brott með annarri rútu.