Fíkniefnaneytendur virðast sækjast í skjólsæla lóð Vallaskóla á Selfossi en tól til fíkniefnaneyslu hafa ítrekað fundist á lóð skólans í vetur.
Sunnlenska.is fékk ábendingu frá lesanda um síðustu helgi að við inngang að kjallara Vallaskóla við Engjaveg væri að finna að finna tvær hasspípur, svokölluð lón. Við nánari eftirgrennslan fundust lónin við kjallarahurðina, annað á stéttinni fyrir framan hurðina en hinu hafði verið komið fyrir á hárri gluggasyllu, utan seilingar flestra.
Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hefur ítrekað orðið vart við fíkniefnaneytendur á skólalóðinni í vetur, jafnvel um hábjartan dag.
Guðbjartur Ólason, skólastjóri, staðfesti í samtali við sunnlenska.is að neyslutól hafi fundist á skólalóðinni fyrr í vetur og málið hafi verið tilkynnt til lögreglu. „Þetta gefur okkur tilefni til að bæta eftirlitsmyndavélakerfið við skólann, og það verður gert,“ sagði Guðbjartur í samtali við sunnlenska.is.
Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi, segir að ábendingar sem þessar séu teknar til skoðunar hjá lögreglunni en borgarar sem finna tól til fíkniefnaneyslu á víðavangi ættu að koma þeim til lögreglu. Það gefi henni að minnsta kosti einhverja hugmynd um umfang neyslunnar.