Talsverður erill var síðastliðinn sólarhring hjá lögreglunni á Suðurlandi. Fjölmargir hafa lagt leið sína í og um umdæmið hvort sem er til veru á tjaldsvæðum eða á leið til annarra staða.
Flest öll tjaldsvæði í uppsveitum Árnessýslu eru þétt setin og einnig er talsverður fjöldi á tjaldsvæðum annarsstaðar í umdæminu. Umferð er mikil og þétt á köflum en hefur gengið greiðlega utan hefðbundinna tafa á álagstímum við Hveragerði og Selfoss.
Fjögur umferðaróhöpp urðu þar sem þurfti liðsinni lögreglu en ökumenn og farþegar sluppu án teljandi meiðsla.
Í tvígang voru erlendir ferðamenn kærðir fyrir akstur utan vega, annars vegar við Fjallsárlón og hins vegar á Skeiðarársandi. Um 20 ökumenn hafa verið kærðir fyrir hraðakstur í umdæminu sem og nokkrir fyrir ölvunarakstur.
Tvö heimilsofbeldismál hafa komið inn á borð lögreglunnar sem vinnur að rannsókn þeirra.
Nokkuð hefur verið um fíkniefnamál þar sem aðilar hafa reynst vera með fíkniefni í fórum sínum sem og að fíkniefni hafa fundist á víðavangi í kringum tjalsvæði.
Ölvun og pústrar í uppsveitunum
Flest verkefni næturinnar komu upp á og við Flúðir þar sem mikill fjöldi fólks er. Talsvert var um ágreining og pústra einstaklinga á milli. Ölvun virtist nokkuð mikil sem og notkun annarra vímugjafa.
Lögregla beinir þeim tilmælum til ökumanna að sýna aðgát og tillitssemi í umferðinni og ætla sér nægan tíma til ferða milli staða, einnig að einstaklingar sem hafi hverskyns vímuefni um hönd láti akstur bifreiða eiga sig en fjölmörg dæmi eru þess að ökumenn eru stöðvaðir undir áhrifum á bifreiðum þrátt fyrir að þeir telji sig allsgáða.
Lögregla mun halda úti öflugu eftirlit í umdæminu um helgina og verða víða settir upp eftirlitspóstar þar sem kannað verður með ástand og réttindi ökumanna. Eftirlit mun einnig verða viðhaft úr lofti í samvinnu við Landhelgisgæsluna.