Fimm bíla árekstur austan við Vík

Lögreglan í Vík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hópslysaáætlun var virkjuð í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi eftir umferðarslys nálægt Dýralækjum á Mýrdalssandi síðdegis í dag.

Neyðarlínan fékk boð um slysið klukkan 16:22 en þar lentu fimm bílar í árekstri. Ein bifreiðin valt og kviknaði eldur í annarri.

Tólf einstaklingar voru samtals í bílunum og þegar fyrstu viðbragðsaðilar komu á staðinn var ljóst að enginn var alvarlega slasaður. Því var neyðarstig afturkallað og mikið dregið úr viðbragði en björgunarsveitarfólk frá Vík, Kirkjubæjarklaustri og Álftaveri eru við vinnu á vettvangi.

Nú er unnið að því að flytja fólk af slysstað og má búast við umferðartöfum við slysstaðinn meðan sú vinna og hreinsun vettvangs fer fram.

Mikil hálka er víða um Suðurland og biður lögregla vegfarendur um að haga akstri sínum eftir því.

Fyrri greinStartbyssu stolið í innbroti á Selfossi
Næsta greinGrátlegt tap gegn toppliðinu