Fimm fengu styrki úr menningarsjóðnum

Hvolsvöllur. Ljósmynd/hvolsvollur.is

Fimm verkefni fá styrk úr vorúthlutun Menningarsjóðs Rangárþings eystra. Sveitarstjórn staðfesti úthlutunartillögu markaðs- og menningarnefndar á fundi sínum í morgun.

Alls bárust átta umsóknir í sjóðinn og óskað var eftir styrkjum samtals að upphæð tæplega 7,6 milljóna króna. Til úthlutunar voru 1.250 þúsund krónur.

Midgard Adventure fékk hæsta styrkinn, 500 þúsund krónur, Sól Hansdóttir fékk 300 þúsund krónur og sama upphæð fór til Jass undir Fjöllunum. Rótarýklúbbur Rangæinga fékk 150 þúsund krónur og Tónlistarskóli Rangæinga 100 þúsund krónur.

Í bókun markaðs- og menningarnefnd segir að nefndin sé mjög ánægð með þann fjölda góðra umsókna sem bárust og beri það merki um að menningarlífið í Rangárþingi eystra sé í miklum blóma.

Fyrri greinÁtta kvennalið tóku þátt í héraðsmóti í blaki
Næsta greinStundum gengur fólk ekki í takt