Fimm handteknir vegna kannabisræktunar

Um klukkan 10:30 í gærmorgun stöðvaði lögreglan á Selfossi bifreið skammt frá Eyrarbakka. Ökumaðurinn var undir áhrifum vímuefna og var hann því handtekinn og fluttur á lögreglustöðina á Selfossi.

Bifreið mannsins var gerð upptæk og við leit í henni fundust um 20 g af marijúana. Í framhaldinu var gerð húsleit í íbúðarhúsi á Eyrarbakka og þar fundust um 230 gr af marijúana. Fljótlega vaknaði grunur hjá lögreglu um kannabisræktun í gámi við sumarbústað í Grímsnesi.

Við leit í gámnum fundu lögreglumenn tólf plöntur auk 40-50 gr af afskurði sem átti eftir að þurrka fyrir sölu. Að auki voru gerð upptæk áhöld til ræktunar, búnaður til vökvunar, hitalampar, pottar og loftræstitúður.

Málið telst upplýst en við rannsókn þess voru fimm einstaklingar á aldrinum 25 ára til sextugs handteknir og yfirheyrðir.

Fyrri greinRíkir Rússar í landaleit
Næsta greinEllefu Selfyssingar í úrvalshópi FSÍ