Í gær undirrituðu Selfossveitur og Íslenska gámafélagið samning til þriggja ára um að Íslenska gámafélagið setji upp og reki fimm hleðslustöðvar í Árborg fyrir allar gerðir rafbíla.
Við það tækifæri var fyrsta stöðin tekin í notkun við Sundhöll Selfoss en á næstunni verða settar upp stöðvar við Ráðhús Árborgar og íþróttavöllinn við Engjaveg. Á Eyrarbakka verður hleðslustöð vestan við félagsheimilið Stað og á Stokkseyri við sundlaugina. Gert er ráð fyrir að allar stöðvarnar verði komnar upp í byrjun febrúar.
Hægt er að hlaða tvo bíla við hverja stöð. Þær verða snúrulausar og eru af gerðinni Circontrol eVolve og eru 2 x 22kW AC. Stöðvarnar verða útbúnar með nettengdum hugbúnaði og rekstrarkerfi og verða sýnilegar í kortagagnagrunnum og í smáforritum fyrir farsíma. Íslenska Gámafélagið mun annast rekstur stöðvanna undir merkjum Ísorku.
Kostnaður við uppsetningu hleðslustöðvanna er rúmar 7 milljónir króna en Orkusjóður styrkir verkefnið um 50% af áætluðum kostnaði við uppsetningu og rekstri til þriggja ára.
Allar hleðslur til meðlima Ísorku verða ókeypis fram að áramótum en eftir það kostar mínútan 2,5 krónur og 23 krónur fyrir hverja kílówattstund sem bíllinn tekur.
Jón Tryggvi Guðmundsson, framkvæmda- og veitustjóri Árborgar, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar og Sigurður Ástgeirsson, verkefnastjóri hjá Ísorku, við undirritun samningsins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fulltrúar sveitarfélagsins og Ísorku ásamt verktökum sem komu að uppsetningu fyrstu hleðslustöðvarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl