Kjörstjórn Framsóknarfélags Árborgar hefur samþykkt gild framboð fimm frambjóðenda sem gefið hafa kost á sér í lokað prófkjör félagsins, sem fram fer laugardaginn 12. mars næstkomandi.
Þar verður kosið í þrjú efstu sæti framboðslistans samkvæmt framboðsreglum flokksins og er kosningin bindandi fyrir þrjú efstu sætin.
Þeir frambjóðendur sem verða í kjöri eru Helgi Sigurður Haraldsson og Stefán Gunnar Stefánsson, sem gefa kost á sér í 1. sætið, Ellý Tómasdóttir, sem gefur kost á sér í 2. sætið, Páll Sigurðsson, sem gefur kost á sér í 2.-3. sæti og Díana Lind Sigurjónsdóttir, sem gefur kost á sér í 3. sætið.
Kjörfundur verður í Rauða kross salnum á Eyravegi 23 á Selfossi, laugardaginn 12. mars klukkan 10-18. Utankjörfundar atkvæðagreiðsla verður 8.-10. mars frá kl. 17 til 20 á Eyravegi 15 Selfossi. Rétt til að taka þátt í lokuðu prófkjöri eiga allir flokksbundnir félagar í Framsóknarflokknum sem áttu lögheimili í sveitarfélaginu Árborg þann 9. febrúar síðastliðinn.